Helgi

Það var lítið um loforðið um það að skrifa færslu á föstudaginn. Nú er kominn mánudagur og helgin flaug framhjá.

Föstudagurinn fór allur í verkjakast. Augun tóku frá mér alla orku og ég lá undir sæng og tók allan daginn í að undirbúa að hitta fólk um kvöldið. Ég var með stingandi augnverki sem þýddi ég þurfti að vera undir sæng svo birtan meiddi mig ekki. Ég tók öll verkjalyf sem ég má taka samkvæmt læknisráði, eftir það fóru sumir verkir, en í staðinn birtust aðrir sem ég hafði ekki fundið fyrir áður, og þeir voru jafn slæmir. Á svona dögum get ég ekkert gert nema halda út daginn, vitandi að næsti verði betri. Ég ætlaði samt að hitta fólk um kvöldið, þannig að ég einbeitti mér að því að gera allt sem ég gat til að gera það mögulegt. Á föstudagskvöldum hitti ég fólk í tólfsporastarfi, og ég reyni að láta þa’ alltaf standast. Þá og á sunnudagskvöldum. Ég bað vinkonu mína að sækja mig og við fórum saman. Þegar á staðinn var komið studdi hún mig upp stigana þar sem fundurinn var. Þegar fólk sér mig svona í þessu ástandi fær oft svolítið á það og ég upplifi mig í því hlutverki að fullvissa fólk um að ég eigi eftir að lifa þetta af. Sumir spyrja kannski afhverju ég er ekki bara heima þegar ég er svona illa stödd, en að það skipti mig máli að viðhalda einhverri grunnvirkni. Það heldur manni frá því að einangrast þegar maður er í sem mestum veikindaköstum. Þegar ég kom heim lagði ég mig og vaknaði síðan seinna um kvöldið, allir verkirnir loksins farnir, eða að mestu leiti. Og þá skaust að mér þessi klassíska hugsun, best að byrja að taka til eða eitthvað. Eftir kyrrsetuna langar mann oft óstjórnlega að fara í einhverjar framkvæmdir og ég hef oft skotið mig í fótinn með slíkum átökum og legið flöt marga daga á eftir. Á slíkum stundum er mikilvægast að hafa hemil á sjálfri mér, svo ég geri mig ekki veikari en ástæða er til. Það tekst ekki alltaf en sem betur fer náði ég að hemja mig. Ég kíkti aðeins í Hagkaup að kaupa eina kókdós, svona sem nammi fyrir mig og manninn minn. Þar hitti ég vinkonu mína sem var að koma af karókikvöldi. Hún leit glæsilega út og minnti mig svolítið á að fólk hringir ekki í mig þegar atburðir eru í gangi því ég er ekki líkleg til að komast með. Ég þarf að fara að gera eitthvað í þessu sjálf líklega. Vera virkari að fylgjast með ef ég get.

Um hádegi á laugardaginn vaknaði ég aldrei þessu vant fullkomlega verkjalaus. Það gerist sjaldan þessa dagana, en gladdi mig mikið. Ennþá meira gladdi mig þegar Gullið bað mig um að skutla sér og vinkonu sinni á safn, og ég sá að ég myndi geta mammast svolítið. Við sóttum vinkonu hennar og kíktum svo á safnið. Þær eru báðar á þrettánda ári og safnið var reðursafn íslands, og auðvitað mikið flissað. Eftir safnið fórum við í Kringluna og keyptum krap, svo skoðuðum við okkur um sem var þægileg tilbreyting, að vera eðlileg með stelpunni sinni. Við kíktum í snyrtivörubúð og þær stelpurnar prófuðu allskyns hluti. Gullið er orðinn svolítill táningur og fermist á næsta ári. Hormónarnir eru aðeins farnir af stað hjá henni og smá bólur farnar að myndast hér og þar, sem kallaði á kaup á snyrtivörum, sem ég hafði ekki í raun efni á, en það var þess virði fyrir þennan dag. Hún þarf líka að fá að vera uppvaxandi stelpa og ég finn útúr peningunum einhvernvegin. Þegar við vorum búin í snyrtivörubúðinni fékk ég sms frá Prinsessunni þar sem hún spurði hvort við gætum komist í sund. Í raun og veru hafði ég ætlað að kíkja með annarri vinkonu í búðir að skoða sumarjakka sem mamma hafði boðist til að kaupa handa mér í afmælisgjöf. Aldrei þessu vant tókst mér að muna eftir því að takmarka framkvæmdirnar miðað við úthald seinustu daga. Ég skutlaði vinkonunum í aðra sundlaug sem þeim langaði í og sótti svo Prinsessuna. Stuttu eftir að við komum í sundið kláraðist orkan hjá mér og við fórum heim, en ég var virkilega ánægð með daginn. Þrír klukkutímar af “venjulegum” degi án verkja og áhyggja var algerlega það sem mig vantaði.

Sunnudagurinn fór að mestu í smá framkvæmdir heima. Mamma og pabbi höfðu boðist til að hjálpa okkur að sinna gólfunum og öðrum verkum sem við höfum ekki komist yfir í veikindum síðustu vikna. Krumminn hefur venjulega náð yfir mesta ruslið en þegar hann varð veikur í síðustu viku féll þónokkuð niður. Hjálpin var vel þegin en það er samt alltaf erfitt að muna að vera ekki að gera of mikið. Maður vill ekki líta út fyrir að vera alger aumingi en ég þarf mikið að minna mig á að vera ekki með einhverja hetjustæla á kostnað almennrar heilsu. Það þarf lítið til að fella mig núorðið. Ég fór eitthvað smá offörum og um kvöldið lennti ég í heiftugu verkjakasti á fundinum. Gleymdi að taka verkjalyf áður en ég fór svo ég gat sjálfri mér um kennt. Fékk augnverki, ógleði og vöðvaverki sem liðu hjá uppúr klukkan tíu reyndar. Þá var ég á leiðinni heim og ákvað að kíkja á kettlingana hjá vinkonu minni og endaði í margra klukkutíma spjalli um hitt og þetta sem var ótrúlega gaman. Seint og síðarmeir fór ég heim að sofa.

Dagurinn í dag var órtúlega fínn. Sólin skein og það var virkilega sumarlegt. Ég var eitthvað búin að vera að kvíða fyrir sumrinu. Flestir verða virkari og þá sá ég fyrir mér að munurinn milli mín og þeirra yrði skarpari kveið því hvernig það færi í mig. Ég er mikið að kljást við þessa auknu hömlur mínar og hver staða mín er gagnvart þeim en eitthvað er ég að verða jákvæðari. Líklegast vegna þess að ég sé að andlega hliðin er að braggast hjá Krummanum, hlutir eru komnir meira á hreint varðandi fjármálin þótt þau verði knöpp og þegar ég þarf að hafa minni heildaráhyggjur af sliku fæ ég rými til að sjá jákvæðu hlutina og meira að segja verkirnir verða þolanlegri. Ég fór í stutt viðtal til hjúkrunarfræðingsins og þegar ég kom heim dró maðurinn minn mig í litla gönguferð. Ég var örþreytt eftir gönguna en eftir að leggja mig stutt tók við ágætiskvöld. Við gláptum á þætti og Krumminn og Gullið sinntu heimalærdómnum. Á morgun þarf ég að sinna nokkrum skriffinskuvesenum en núna tekur svefninn við.

Hægagangur

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg var áætlunin að skrifa einu sinni á dag. Eins og allar aðrar áætlanir er þessi ekki alveg að ganga. Þegar ég þarf að gera eitthvað meira en venjulega fer orkan í það og bloggið kemst ekki að. Ég er búin að vera í allan dag föst í augn, höfuð og líkamsverkjum og fyrst núna gat ég komið mér í að skrifa. Hvarflaði að mér að biðja manninn minn að skrifa fyrir mig en hann var á fullu í dag og fór líka í sjúkraþjálfun sem tók alla orkuna sem eftir var svo ég ákvað að bíða bara þar til ég gæti skrifað.

Á mánudaginn fór ég í sjúkraþjálfun. Ég átti að fara í einhverjar æfingar en endaði í hitameðferð við verkjum. Svo fór ég í mánudagsviðtalið við hjúkrunarfræðinginn sem var allt í lagi. Eftir það fór ég heim að sofa þar til ég fór á samkomu. Hélt hana ekki út, of slöpp og fór heim snemma.

Þriðjudagurinn var góður til að byrja með. Ég fór í viðtal til félagsráðgjafa til að sækja um stuðningsfjölskyldu fyrir Gullið sem gekk vel. Síðan fór ég að borga skuld við sjúkraþjálfarann og skila því inn til stéttarfélags mannsins míns. Á mánudaginn fékk ég neitunarbréf frá Hjálparstofnun Kirkjunnar en sama dag sá ég að við fengjum 50 þúsund minna útborgað en við bjuggumst við svo ég prófaði að sækja aftur um. Sem betur fer fékk ég mig til þess því það var samþykkt. Ég á ennþá eftir að finna orku til að semja við bankann um hlutina sem við getum ekki borgað og klára að finna síðustu pappírana sem þurfti fyrir skattaskýrsluna.

Gærdagurinn var tómur þar til seinni partinn. Ég dró fjölskylduna í sund sem gerði okkur öllum gott. Spjall og slökun. Eftir það fór ég að hjálpa vinkonu minni að ferja fólk fyrir flutninga. Það tók klukkutíma og eftir það þurfti ég að fara heim. Komin með höfuðverk og verki í fæturnar.
Í dag ætlaði ég að klára það sem eftir var en vaknaði eins og ég nefndi áður með verkjahömlur. Ég var fyrst núna að komast í hreyfingu. Krumminn var í allan dag að finna út úr málum með sjúkradagpeningana og kom örmagna heim. Sjúkraþjálfunin gerir hann alltaf mjög þreyttann. Vonandi á hún samt eftir að gagnast honum. Hans ástand er vonandi tímabundið, verandi eftir slys. Hann má ekki við aukaálaginu og það að vera í vinnu með eðlilegu fólki en ekki fastur heima í veikindum með mér var mikils virði. Hann er virkur maður og vinnan mikill hluti af sjálfsmynd allra.

Ég er búin að berjast mikið við það í gegnum undanfarin tíma að finna mér tilgang. Ef maður er ekki að vinna eða læra er það erfitt, sérstaklega þegar ég get ekki einu sinni gagnast mikið á heimilinu. Hugtakið atvinnusjúklingur er eitthvað sem kom upp í hálfkæringi fyrir nokkru þegar ég var að verða veikari. Móðir mín hafði áhyggjur af minnkandi virkni hjá mér og sagði ” þú verður að passa þig að hreyfa þig svo þú verðir ekki að atvinnusjúklingi”. Ég hreyfði mig áfram og var í endurhæfingu með skóla, en núna er það sem ég geri alla daga einfaldlega að reyna að berjast við sjúkdóminn minn, hvort sem ég næ því eða ekki, og líka vera partur af samfélaginu og fjölskyldu og vinum. Utanfrá er ég ekki afformuð, fötluð eða veik að sjá. Sárin eru lítil og líkjast bólum, verkirnir eru ósýnilegir nema þegar þeir ná því stigi að ég fer að stynja undan þeim, stirðleikinn er kannski stundum sýnilegur en þreytan líkist bara leti fyrir þá sem ekki sjá betur. Ég er með skilti fyrir hreyfihamlaða í bínum og hef verið spurð hvers vegna ég sé með það því fólk sér mig ekki eiga neitt erfitt með gang. Minn vandi er úthald. Ef ég þarf að ganga meira en vissar vegalengdir nota ég alla þá litlu orku sem ég hef og get liðið útaf. Plús það að ef ég þarf að gera eitthvað meira þann dag er ekkert eftir.

Núna er ég búin með vélritunarorkuna. Handleggirnir og fingurnir eru að gefa sig. Kannski ég skrifi meira á morgun. Ég hafði líka hugsað mér að setja hér inn efni sem ég hef skrifað annars staðar.

Andvaka…

Klukkan er tvö og það eru tveir tímar síðan ég fór upp í rúm. Ég fór í þessa stuttu gönguferð áðan og svo aðeins að hitta fólk og þótt mér hafi tekist að halda mér frá því að vera of pirruð meðan ég var meðal fólks var ekkert eftir þegar ég kom heim. Eymslin um allan líkamann eru yfirgnæfandi og þótt ég hafi tekið verkjalyf og Phenergan fyrir svefninn er ég ekkert betur stödd. Stóð fyrir framan lyfjakassann áðan og langaði helst að taka tólf Phenergan til að fá bara að sofa frá mér verkina. Kláraði svo að hátta, lagðist upp í rúm og fór svo að gráta þegar ég áttaði mig á að ég hafði gleymt að fara á salernið. Bara tilhugsunin um að þurfa að standa upp var yfirþyrmandi. Maðurinn minn hjálpaði mér á fætur aftur og síðan ég lagðist eftir það er ég búin að reyna að sofna. Líklegast verður þetta verkjaandvökunótt sem endar með að ég sofna af örþreyttu milli sex og níu og morgundagurinn verður furðulegur. Ég kisurnar, hljóðbækur og eitthvert vefbröllt.

Kettlingar

Gærdagurinn var tíðindalítll. ég hefði örugglega verið heima mestallan dagin en vinkona mín hringdi í mig fyrir hádegi til að tilkynna kettlinga sem fæddust um nóttina. Ég fór með Gullið og vinkonu hennar að skoða krílin og þegar við vorum búin að knúsa og dást að þeim í nokkra stund fórum við heim og ég beint undir sæng aftur. Ég er mjög verkjuð þessa dagana. Upphandleggirnir eru eins og stór marblettur og ef ég sit í smá stund stífna allir vöðvar og útlimir.

Ég svaf illa í nótt en dró mig á fætur núna um þrjú leytið og hef verið að harka af mér að vera á fótum þótt ég sé öll aum. Við Krumminn skoðuðum skattaframtalið aðeins en ég þarf að hringja í einhvern á morgun til að klára málið. Við seldum og keyptum á síðasta ári og það er pínu flókið að skrifa inn.

Gullið fór með annarri vinkonu sinni í sund áðan og ég er virkilega glöð að hún er á þeim aldri að geta haft aðeins ofan af fyrir sér sjálf. Lífið hérna heima er ekki það mest upplífgandi fyrir verðandi unglingsstelpu.

Á eftir ætla ég að prófa að fara í stutta gönguferð. Veðrið er svo fallegt að ég verð að reyna. Fá sól í kroppinn og vera aðeins á fótum. Hver hreyfing er kvöl og pína þrátt fyrir verkjalyfin en ég er vön. Munnsærin virðast vera að hverfa sem er jákvætt og ég sé ekki lengur rautt í augunum þannig að þær bólgur eru að minnka.

Svo er sjúkraþjálfun á morgun sem ég kvíði alltaf fyrir. Sjúkraþjálfunin hjálpar til til langframa en eykur sársaukann mikið meðan hún er að byrja. Það er álag sem ég er ekki mjög spennt fyrir. Krumminn lenti í bakslysi í sumar sem skaddaði vöðva í bakinu á honum svo við förum á sama tíma sem er pínu skemmtilegt. Gerir það líka líklegra að ég fari. Ég hef skrópað aðeins undanfarið. Eiginlega ómeðvitað, er að forðast verkina og lyfjatökuna sem fylgir þeim en ég verð að harka þetta af mér.

Depurð…

Eins og ég hefði mátt vita var fimmtudagurinn stuttur. Komst loksins framúr um fjögurleytið samt og fór í sund með familíunni og Prinsessunni. Of sein í fjölskylduhjálpina en lét það liggja milli hluta. Krumminn og Prinsessan voru bæði frekar krumpuð og það tók pínku á að vera jákvæða manneskjan og þegar í sturtuna var komið var batteríið búið. Sund mýkir samt oftast verkina þannig að það vann smá á móti. Fór heim og lagði mig og mundi svo að ég hafði ætlað að hitta gamla vinkonu um kvöldið. Kippti mér uppúr þreytunni og náði meira að segja að mála mig smá og gera sæta. Hún sótti mig og við keyrðum nokkra hringi í miðbænum þangað við fundum stæði. Kíktum á kaffi Haiti þar sem við sáum listaverk eftir ungan listamann og borðuðum bestu súkkulaðiköku sem ég hef borðað í langan tíma. Spjölluðum um heima og geima og ég naut þess í ystu æsar að eiga þarna manneskjulega stund. Þykjast vera manneskja og eins og hinir. Bara glöð og afslöppuð með góðri vinkonu. Í tilefni þess að við vorum svona saman gengum við meira að segja smá spöl og þegar ég kom heim tókst mér að hugsa ekkert um morgundaginn né aðrar áhyggjur. Án efa með betri stundum þessarra vikna.

Í morgun vaknaði ég með verkjaskuld síðustu tveggja daga. Aum og þreytt og tók mig marga klukkutíma að koma mér í að borða til að minnka verkina. Sem betur fer var hringt í mig og ég beðin að taka þátt í smá 12 spora vinnu sem dró mig úr bælinu. Beint eftir það var mánaðarlegi saumaklúbburinn hjá Tækniskólaskvísunum. Ég læt mig aldrei vanta á þessa hittinga ef ég mögulega get. Þykir endalaust vænt um þessar konur og nýt þess að hitta þær. Í dag var samt allt skrýtið. Mér leið strax illa, líkamlega og það leiddi beint út í andlegu hliðina. Þessa dagana þarf virkilega lítið til að draga mig niður í depurð. Ég er orðin langþreytt af álagi, kvíða og áhyggjum sem bætast ofan á líkamlegu einkennin. Fljótlega var ég orðin utan við mig og farin að taka öllu illa sem ég sá og heyrði. Þetta er í fyrsta skiptið sem slíkt nær að draga mig svona mikið niður í þessum hittingum. Venjulega er þetta stund sem endurnærir mig. Drungi hversdagsins náði mér þarna allveg hreint. Ég átti meira að segja erfitt með að samgleðjast mínum góðu vinkonum um það sem er gott að gerast í þeirra lífi. Og svo fannst mér ég vera smásálarleg að hugsa svona.

Undanfarið hefur lífið hreint og beint verið óþægilega mikil áminning um stöðu mína í samfélaginu og lífinu. Fólk í skóla minnir mig á að ég get ekki haldist í námi heilsunnar vegna. Fólk í vinnu minnir mig á að ég á örugglega ekki eftir að vinna framar. Fólk með börn minnir mig á að ég get ekki áhættulaust hugsað um að eiga fleirri börn. Hefði líka ekki efni á því að framfæra þeim ef svo væri. Utanlandsferðaauglýsingar minna mig á að frá því að ég kynntist manninum mínum hefur okkur langað að ferðast til London eina helgarferð eða svo en peningarnir eru ekki til og verða það varla í framtíðinni. Framtíðin inniheldur endalausar læknaheimsóknir, óvænt veikindi, minnkandi þrek, aukna verki og hömlur. Í gegnum tíðina hef ég verið mjög virk við að temja mér Pollýönnu hugsýnina en það er skrambi erfitt stundum.

Kannski sé ég hlutina bjartari augum á morgun.

Working 10 to 16…

Sólin kom í morgun með rúnstykki og bros. Ég sýndi henni bloggið og hún var eins og við mátti búast hissa á þessu trúarhoppi mínu. En hún skilur vel að ég leiti í þetta. Eftir að hún fór byrjaði ég að undirbúa daginn.

Eitt af því mest gefandi við að vera öryrki er miðvikudagsrútínan. Hjálparstofnun kirkjunnar, fjölskylduhjálpin og mæðrastyrksnefnd eru öll með úthlutun á miðvikudögum. Örorkubæturnar duga sjaldan fyrir lyfjakostnaði, lækniskostnaði, mat, bensíni, skuldahalanum, húsnæðiskostnaði og öllum hinum smáhlutunum þannig að til að minnka sníkjurnar af vinum og ættingjum býðst öryrkjum og öðrum góðborgurum aðstoð frá nokkrum góðgerðabatteríum. Án þessarra góðu einstaklinga/stofnanna sem vinna þarna væri neyð okkar smáborgaranna líklega augljósari pöpulnum en það leynist engum sem stendur hálftímann í misgóðum veðrum að neyðin er til staðar. Engin stæði þarna eins og ég í rigningunni í dag nema af nauðsyn.

Röðin silast áfram og þarna eru allir jafnir. Í raun var það bull af mér að leggja heilsuna í þetta en þetta var síðasta úthlutun fyrir mánaðarmót. Ég má mæta tvisvar í mánuði. Maður veit aldrei hvort heilsan leyfir næsta miðvikudag svo best er að hætta á það. Eftir mæðrastyrksnefnd fór ég upp í Hjálparstofnun kirkjunnar með allar upplýsingar um mig og manninn. Útgjöld og tekjur eins og fyrir greiðslumat. Sum útgjöld teljast ekki með og ég upplifi mikinn kvíða yfir hvort ég mælist verðug. Ég hefði átt að sækja fyrr um en síðast þegar ég reyndi munaði nokkrum þúsundköllum og áfallið situr í manni. Þetta tekur viku og ég ætla upp í fjölskylduhjálp á morgun að sjá hvort eitthvað gengur þar.

Miðvikudagarnir sem fara í þetta draga mann alltaf niður. Minna mann á raunveruleikann og stilla manni kyrfilega í sinn bás í samfélaginu. Ég var örmagna eftir þetta smábrot og hringingar hingað og þangað annað sem ég hef frestað af þreytu, skapdrunga eða einfaldlega vegna þess að opnunartími stofnana er oftast knappur fyrir manneskju sem tekur hálfan daginn í að koma líkamanum af stað. Niðurstaðan er samt góð, tími hjá heimilislækni, félagsráðgjafa, heimilishjálp og sjúkraþjálfun bókaðir og smá auka matur í skápnum. En líkaminn er mér reiður þótt ég hafi legið fyrir frá fimm.

Hvíld…

Ég hef ekki haft raunverulegan og góðan svefn í margar vikur. Í gærkvöldi eftir samkomuna tók ég Phenergan sem er ofnæmislyf oft notað til að róa fólk fyrir svefninn. Hjúkkan hafði mælt með því. Ekki nóg með að ég hafi sofnað, heldur svaf ég fram til átta um kvöldið í dag. Talaði við Sólina í síma. Hún ætlar að kíkja í fyrramálið og hún var sammála því að ég hefði örugglega verið að ná slökun í fyrsta skipti eftir margra vikna álag. Ég er svo endurnærð að það er ótrúlegt. Venjulega þegar ég sef svona of lengi vakna ég með hausverk og samviskubit en ekki í dag. Spurningin er svo: næ ég að sofna núna eða verð ég vakandi í alla nótt?

Ætli guð sé við í kvöld?

Vaknaði rétt í tæka tíð fyrir viðtal á göngudeild… Lagði örfáum sekúndum of seint. Lýsti hörmungum helgarinnar fyrir hjúkkunni og fór svo að sækja Gullið í skólann. Gullið ætlaði að vera öll í kerfi en ég svínaði í veg fyrir vonda skapið með tilboði um pulsu og heimsókn í Nexus. Verðmátum pokemon spilin og plönunðum hvert ágóðinn færi. Komum svo heim og Krumminn var orðinn hressari. Knúsuðum hann og svo kallaði ég á Prinsessuna og hún og Krumminn hjálpuðu mér að sorteruðum fataskápinn. Fann fullt af fötum sem ég mundi ekki eftir og fór svo að athuga hvort ég fyndi guð í kvöld.

Undanfarin tvö mánudagskvöld hef ég heimsótt samkomur hjá United Reykjavík í Kópavogi. Kæmi flestum sem hafa þekkt mig mikið gegnum tíðina nokkuð á óvart en ég er eiginlega algerlega sátt við þessa þróun. Ég uppgötvaði nýlega að ég hafði verið eiginlega stöðugt hrædd í marga mánuði í þessum veikindum og síðasta lota hristi þetta allt upp. Ég ákvað þá að gera allt sem ég gæti til að einfalda og létta andlega lífið og ég veit það af vissu að einfaldasta aðferðin er að ná að setja traust sitt utan við sjálfan sig.

Þetta er þriðja heimsóknin síðan ég kom af sjúkrahúsi síðast og uppgötvaði streituna og óttann sem var að yfirgnæfa mig. Í fyrstu heimsókninni var ég örvæntingarfull og sat hrædd aftast meginhluta kvöldsins en naut þess vel að syngja með. Tónlistin er mjög tilfinningaþrungin og flutt gegnum sterkt hljóðkerfi með lýsingu og textanum varpað á skjáinn fyrir aftan flytjendur. Eftir prédikun frá prédikara hópsins ákvað ég að láta biðja fyrir mér og fékk mikla spennulosun meðan ég bað með að óttinn mætti minnka hjá mér. Eitthvað sagði mér að einmitt þetta væri það sem mig vantaði. Skylirðislaus slökun á álagi veikindanna minna við lofgjörð einu sinni í viku.

Í síðustu viku fór ég með Valkyrjunni en það var frekar innihaldslítið. Ég var og upptekin við að vera með félaga og bara gat ekki sleppt andlitinu og veggnum sem hversdagsins skilur eftir.

Þessi ferð var miklu betri. Ég sat róleg og naut umhverfisins og fór svo með fram í sönginn. Eftir það kom predikarinn og í miðri predikuninni var ég næstum farin. Vitsmunaveran barðist hart við andlegu hliðina en ég ákvað að hinkra og eitthvað þægilegt gerðist. Ég róaðist og fann furðulegan frið breiðast um mig. Fyrirbænir var mögnuð og eitthvað yndislegt kom yfir mig. Ég held að samtalið mitt við guð sé á góðum stað…

Fyrsta færslan

Velkominn í bloggið þitt á Blogg.is. Þetta er fyrsta færslan þín sem þú getur breytt (eða eytt). Byrjaðu að blogga!