Ætli guð sé við í kvöld?

Vaknaði rétt í tæka tíð fyrir viðtal á göngudeild… Lagði örfáum sekúndum of seint. Lýsti hörmungum helgarinnar fyrir hjúkkunni og fór svo að sækja Gullið í skólann. Gullið ætlaði að vera öll í kerfi en ég svínaði í veg fyrir vonda skapið með tilboði um pulsu og heimsókn í Nexus. Verðmátum pokemon spilin og plönunðum hvert ágóðinn færi. Komum svo heim og Krumminn var orðinn hressari. Knúsuðum hann og svo kallaði ég á Prinsessuna og hún og Krumminn hjálpuðu mér að sorteruðum fataskápinn. Fann fullt af fötum sem ég mundi ekki eftir og fór svo að athuga hvort ég fyndi guð í kvöld.

Undanfarin tvö mánudagskvöld hef ég heimsótt samkomur hjá United Reykjavík í Kópavogi. Kæmi flestum sem hafa þekkt mig mikið gegnum tíðina nokkuð á óvart en ég er eiginlega algerlega sátt við þessa þróun. Ég uppgötvaði nýlega að ég hafði verið eiginlega stöðugt hrædd í marga mánuði í þessum veikindum og síðasta lota hristi þetta allt upp. Ég ákvað þá að gera allt sem ég gæti til að einfalda og létta andlega lífið og ég veit það af vissu að einfaldasta aðferðin er að ná að setja traust sitt utan við sjálfan sig.

Þetta er þriðja heimsóknin síðan ég kom af sjúkrahúsi síðast og uppgötvaði streituna og óttann sem var að yfirgnæfa mig. Í fyrstu heimsókninni var ég örvæntingarfull og sat hrædd aftast meginhluta kvöldsins en naut þess vel að syngja með. Tónlistin er mjög tilfinningaþrungin og flutt gegnum sterkt hljóðkerfi með lýsingu og textanum varpað á skjáinn fyrir aftan flytjendur. Eftir prédikun frá prédikara hópsins ákvað ég að láta biðja fyrir mér og fékk mikla spennulosun meðan ég bað með að óttinn mætti minnka hjá mér. Eitthvað sagði mér að einmitt þetta væri það sem mig vantaði. Skylirðislaus slökun á álagi veikindanna minna við lofgjörð einu sinni í viku.

Í síðustu viku fór ég með Valkyrjunni en það var frekar innihaldslítið. Ég var og upptekin við að vera með félaga og bara gat ekki sleppt andlitinu og veggnum sem hversdagsins skilur eftir.

Þessi ferð var miklu betri. Ég sat róleg og naut umhverfisins og fór svo með fram í sönginn. Eftir það kom predikarinn og í miðri predikuninni var ég næstum farin. Vitsmunaveran barðist hart við andlegu hliðina en ég ákvað að hinkra og eitthvað þægilegt gerðist. Ég róaðist og fann furðulegan frið breiðast um mig. Fyrirbænir var mögnuð og eitthvað yndislegt kom yfir mig. Ég held að samtalið mitt við guð sé á góðum stað…