Working 10 to 16…

Sólin kom í morgun með rúnstykki og bros. Ég sýndi henni bloggið og hún var eins og við mátti búast hissa á þessu trúarhoppi mínu. En hún skilur vel að ég leiti í þetta. Eftir að hún fór byrjaði ég að undirbúa daginn.

Eitt af því mest gefandi við að vera öryrki er miðvikudagsrútínan. Hjálparstofnun kirkjunnar, fjölskylduhjálpin og mæðrastyrksnefnd eru öll með úthlutun á miðvikudögum. Örorkubæturnar duga sjaldan fyrir lyfjakostnaði, lækniskostnaði, mat, bensíni, skuldahalanum, húsnæðiskostnaði og öllum hinum smáhlutunum þannig að til að minnka sníkjurnar af vinum og ættingjum býðst öryrkjum og öðrum góðborgurum aðstoð frá nokkrum góðgerðabatteríum. Án þessarra góðu einstaklinga/stofnanna sem vinna þarna væri neyð okkar smáborgaranna líklega augljósari pöpulnum en það leynist engum sem stendur hálftímann í misgóðum veðrum að neyðin er til staðar. Engin stæði þarna eins og ég í rigningunni í dag nema af nauðsyn.

Röðin silast áfram og þarna eru allir jafnir. Í raun var það bull af mér að leggja heilsuna í þetta en þetta var síðasta úthlutun fyrir mánaðarmót. Ég má mæta tvisvar í mánuði. Maður veit aldrei hvort heilsan leyfir næsta miðvikudag svo best er að hætta á það. Eftir mæðrastyrksnefnd fór ég upp í Hjálparstofnun kirkjunnar með allar upplýsingar um mig og manninn. Útgjöld og tekjur eins og fyrir greiðslumat. Sum útgjöld teljast ekki með og ég upplifi mikinn kvíða yfir hvort ég mælist verðug. Ég hefði átt að sækja fyrr um en síðast þegar ég reyndi munaði nokkrum þúsundköllum og áfallið situr í manni. Þetta tekur viku og ég ætla upp í fjölskylduhjálp á morgun að sjá hvort eitthvað gengur þar.

Miðvikudagarnir sem fara í þetta draga mann alltaf niður. Minna mann á raunveruleikann og stilla manni kyrfilega í sinn bás í samfélaginu. Ég var örmagna eftir þetta smábrot og hringingar hingað og þangað annað sem ég hef frestað af þreytu, skapdrunga eða einfaldlega vegna þess að opnunartími stofnana er oftast knappur fyrir manneskju sem tekur hálfan daginn í að koma líkamanum af stað. Niðurstaðan er samt góð, tími hjá heimilislækni, félagsráðgjafa, heimilishjálp og sjúkraþjálfun bókaðir og smá auka matur í skápnum. En líkaminn er mér reiður þótt ég hafi legið fyrir frá fimm.