Depurð…

Eins og ég hefði mátt vita var fimmtudagurinn stuttur. Komst loksins framúr um fjögurleytið samt og fór í sund með familíunni og Prinsessunni. Of sein í fjölskylduhjálpina en lét það liggja milli hluta. Krumminn og Prinsessan voru bæði frekar krumpuð og það tók pínku á að vera jákvæða manneskjan og þegar í sturtuna var komið var batteríið búið. Sund mýkir samt oftast verkina þannig að það vann smá á móti. Fór heim og lagði mig og mundi svo að ég hafði ætlað að hitta gamla vinkonu um kvöldið. Kippti mér uppúr þreytunni og náði meira að segja að mála mig smá og gera sæta. Hún sótti mig og við keyrðum nokkra hringi í miðbænum þangað við fundum stæði. Kíktum á kaffi Haiti þar sem við sáum listaverk eftir ungan listamann og borðuðum bestu súkkulaðiköku sem ég hef borðað í langan tíma. Spjölluðum um heima og geima og ég naut þess í ystu æsar að eiga þarna manneskjulega stund. Þykjast vera manneskja og eins og hinir. Bara glöð og afslöppuð með góðri vinkonu. Í tilefni þess að við vorum svona saman gengum við meira að segja smá spöl og þegar ég kom heim tókst mér að hugsa ekkert um morgundaginn né aðrar áhyggjur. Án efa með betri stundum þessarra vikna.

Í morgun vaknaði ég með verkjaskuld síðustu tveggja daga. Aum og þreytt og tók mig marga klukkutíma að koma mér í að borða til að minnka verkina. Sem betur fer var hringt í mig og ég beðin að taka þátt í smá 12 spora vinnu sem dró mig úr bælinu. Beint eftir það var mánaðarlegi saumaklúbburinn hjá Tækniskólaskvísunum. Ég læt mig aldrei vanta á þessa hittinga ef ég mögulega get. Þykir endalaust vænt um þessar konur og nýt þess að hitta þær. Í dag var samt allt skrýtið. Mér leið strax illa, líkamlega og það leiddi beint út í andlegu hliðina. Þessa dagana þarf virkilega lítið til að draga mig niður í depurð. Ég er orðin langþreytt af álagi, kvíða og áhyggjum sem bætast ofan á líkamlegu einkennin. Fljótlega var ég orðin utan við mig og farin að taka öllu illa sem ég sá og heyrði. Þetta er í fyrsta skiptið sem slíkt nær að draga mig svona mikið niður í þessum hittingum. Venjulega er þetta stund sem endurnærir mig. Drungi hversdagsins náði mér þarna allveg hreint. Ég átti meira að segja erfitt með að samgleðjast mínum góðu vinkonum um það sem er gott að gerast í þeirra lífi. Og svo fannst mér ég vera smásálarleg að hugsa svona.

Undanfarið hefur lífið hreint og beint verið óþægilega mikil áminning um stöðu mína í samfélaginu og lífinu. Fólk í skóla minnir mig á að ég get ekki haldist í námi heilsunnar vegna. Fólk í vinnu minnir mig á að ég á örugglega ekki eftir að vinna framar. Fólk með börn minnir mig á að ég get ekki áhættulaust hugsað um að eiga fleirri börn. Hefði líka ekki efni á því að framfæra þeim ef svo væri. Utanlandsferðaauglýsingar minna mig á að frá því að ég kynntist manninum mínum hefur okkur langað að ferðast til London eina helgarferð eða svo en peningarnir eru ekki til og verða það varla í framtíðinni. Framtíðin inniheldur endalausar læknaheimsóknir, óvænt veikindi, minnkandi þrek, aukna verki og hömlur. Í gegnum tíðina hef ég verið mjög virk við að temja mér Pollýönnu hugsýnina en það er skrambi erfitt stundum.

Kannski sé ég hlutina bjartari augum á morgun.