Kettlingar

Gærdagurinn var tíðindalítll. ég hefði örugglega verið heima mestallan dagin en vinkona mín hringdi í mig fyrir hádegi til að tilkynna kettlinga sem fæddust um nóttina. Ég fór með Gullið og vinkonu hennar að skoða krílin og þegar við vorum búin að knúsa og dást að þeim í nokkra stund fórum við heim og ég beint undir sæng aftur. Ég er mjög verkjuð þessa dagana. Upphandleggirnir eru eins og stór marblettur og ef ég sit í smá stund stífna allir vöðvar og útlimir.

Ég svaf illa í nótt en dró mig á fætur núna um þrjú leytið og hef verið að harka af mér að vera á fótum þótt ég sé öll aum. Við Krumminn skoðuðum skattaframtalið aðeins en ég þarf að hringja í einhvern á morgun til að klára málið. Við seldum og keyptum á síðasta ári og það er pínu flókið að skrifa inn.

Gullið fór með annarri vinkonu sinni í sund áðan og ég er virkilega glöð að hún er á þeim aldri að geta haft aðeins ofan af fyrir sér sjálf. Lífið hérna heima er ekki það mest upplífgandi fyrir verðandi unglingsstelpu.

Á eftir ætla ég að prófa að fara í stutta gönguferð. Veðrið er svo fallegt að ég verð að reyna. Fá sól í kroppinn og vera aðeins á fótum. Hver hreyfing er kvöl og pína þrátt fyrir verkjalyfin en ég er vön. Munnsærin virðast vera að hverfa sem er jákvætt og ég sé ekki lengur rautt í augunum þannig að þær bólgur eru að minnka.

Svo er sjúkraþjálfun á morgun sem ég kvíði alltaf fyrir. Sjúkraþjálfunin hjálpar til til langframa en eykur sársaukann mikið meðan hún er að byrja. Það er álag sem ég er ekki mjög spennt fyrir. Krumminn lenti í bakslysi í sumar sem skaddaði vöðva í bakinu á honum svo við förum á sama tíma sem er pínu skemmtilegt. Gerir það líka líklegra að ég fari. Ég hef skrópað aðeins undanfarið. Eiginlega ómeðvitað, er að forðast verkina og lyfjatökuna sem fylgir þeim en ég verð að harka þetta af mér.