Hægagangur

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg var áætlunin að skrifa einu sinni á dag. Eins og allar aðrar áætlanir er þessi ekki alveg að ganga. Þegar ég þarf að gera eitthvað meira en venjulega fer orkan í það og bloggið kemst ekki að. Ég er búin að vera í allan dag föst í augn, höfuð og líkamsverkjum og fyrst núna gat ég komið mér í að skrifa. Hvarflaði að mér að biðja manninn minn að skrifa fyrir mig en hann var á fullu í dag og fór líka í sjúkraþjálfun sem tók alla orkuna sem eftir var svo ég ákvað að bíða bara þar til ég gæti skrifað.

Á mánudaginn fór ég í sjúkraþjálfun. Ég átti að fara í einhverjar æfingar en endaði í hitameðferð við verkjum. Svo fór ég í mánudagsviðtalið við hjúkrunarfræðinginn sem var allt í lagi. Eftir það fór ég heim að sofa þar til ég fór á samkomu. Hélt hana ekki út, of slöpp og fór heim snemma.

Þriðjudagurinn var góður til að byrja með. Ég fór í viðtal til félagsráðgjafa til að sækja um stuðningsfjölskyldu fyrir Gullið sem gekk vel. Síðan fór ég að borga skuld við sjúkraþjálfarann og skila því inn til stéttarfélags mannsins míns. Á mánudaginn fékk ég neitunarbréf frá Hjálparstofnun Kirkjunnar en sama dag sá ég að við fengjum 50 þúsund minna útborgað en við bjuggumst við svo ég prófaði að sækja aftur um. Sem betur fer fékk ég mig til þess því það var samþykkt. Ég á ennþá eftir að finna orku til að semja við bankann um hlutina sem við getum ekki borgað og klára að finna síðustu pappírana sem þurfti fyrir skattaskýrsluna.

Gærdagurinn var tómur þar til seinni partinn. Ég dró fjölskylduna í sund sem gerði okkur öllum gott. Spjall og slökun. Eftir það fór ég að hjálpa vinkonu minni að ferja fólk fyrir flutninga. Það tók klukkutíma og eftir það þurfti ég að fara heim. Komin með höfuðverk og verki í fæturnar.
Í dag ætlaði ég að klára það sem eftir var en vaknaði eins og ég nefndi áður með verkjahömlur. Ég var fyrst núna að komast í hreyfingu. Krumminn var í allan dag að finna út úr málum með sjúkradagpeningana og kom örmagna heim. Sjúkraþjálfunin gerir hann alltaf mjög þreyttann. Vonandi á hún samt eftir að gagnast honum. Hans ástand er vonandi tímabundið, verandi eftir slys. Hann má ekki við aukaálaginu og það að vera í vinnu með eðlilegu fólki en ekki fastur heima í veikindum með mér var mikils virði. Hann er virkur maður og vinnan mikill hluti af sjálfsmynd allra.

Ég er búin að berjast mikið við það í gegnum undanfarin tíma að finna mér tilgang. Ef maður er ekki að vinna eða læra er það erfitt, sérstaklega þegar ég get ekki einu sinni gagnast mikið á heimilinu. Hugtakið atvinnusjúklingur er eitthvað sem kom upp í hálfkæringi fyrir nokkru þegar ég var að verða veikari. Móðir mín hafði áhyggjur af minnkandi virkni hjá mér og sagði ” þú verður að passa þig að hreyfa þig svo þú verðir ekki að atvinnusjúklingi”. Ég hreyfði mig áfram og var í endurhæfingu með skóla, en núna er það sem ég geri alla daga einfaldlega að reyna að berjast við sjúkdóminn minn, hvort sem ég næ því eða ekki, og líka vera partur af samfélaginu og fjölskyldu og vinum. Utanfrá er ég ekki afformuð, fötluð eða veik að sjá. Sárin eru lítil og líkjast bólum, verkirnir eru ósýnilegir nema þegar þeir ná því stigi að ég fer að stynja undan þeim, stirðleikinn er kannski stundum sýnilegur en þreytan líkist bara leti fyrir þá sem ekki sjá betur. Ég er með skilti fyrir hreyfihamlaða í bínum og hef verið spurð hvers vegna ég sé með það því fólk sér mig ekki eiga neitt erfitt með gang. Minn vandi er úthald. Ef ég þarf að ganga meira en vissar vegalengdir nota ég alla þá litlu orku sem ég hef og get liðið útaf. Plús það að ef ég þarf að gera eitthvað meira þann dag er ekkert eftir.

Núna er ég búin með vélritunarorkuna. Handleggirnir og fingurnir eru að gefa sig. Kannski ég skrifi meira á morgun. Ég hafði líka hugsað mér að setja hér inn efni sem ég hef skrifað annars staðar.