Helgi

Það var lítið um loforðið um það að skrifa færslu á föstudaginn. Nú er kominn mánudagur og helgin flaug framhjá.

Föstudagurinn fór allur í verkjakast. Augun tóku frá mér alla orku og ég lá undir sæng og tók allan daginn í að undirbúa að hitta fólk um kvöldið. Ég var með stingandi augnverki sem þýddi ég þurfti að vera undir sæng svo birtan meiddi mig ekki. Ég tók öll verkjalyf sem ég má taka samkvæmt læknisráði, eftir það fóru sumir verkir, en í staðinn birtust aðrir sem ég hafði ekki fundið fyrir áður, og þeir voru jafn slæmir. Á svona dögum get ég ekkert gert nema halda út daginn, vitandi að næsti verði betri. Ég ætlaði samt að hitta fólk um kvöldið, þannig að ég einbeitti mér að því að gera allt sem ég gat til að gera það mögulegt. Á föstudagskvöldum hitti ég fólk í tólfsporastarfi, og ég reyni að láta þa’ alltaf standast. Þá og á sunnudagskvöldum. Ég bað vinkonu mína að sækja mig og við fórum saman. Þegar á staðinn var komið studdi hún mig upp stigana þar sem fundurinn var. Þegar fólk sér mig svona í þessu ástandi fær oft svolítið á það og ég upplifi mig í því hlutverki að fullvissa fólk um að ég eigi eftir að lifa þetta af. Sumir spyrja kannski afhverju ég er ekki bara heima þegar ég er svona illa stödd, en að það skipti mig máli að viðhalda einhverri grunnvirkni. Það heldur manni frá því að einangrast þegar maður er í sem mestum veikindaköstum. Þegar ég kom heim lagði ég mig og vaknaði síðan seinna um kvöldið, allir verkirnir loksins farnir, eða að mestu leiti. Og þá skaust að mér þessi klassíska hugsun, best að byrja að taka til eða eitthvað. Eftir kyrrsetuna langar mann oft óstjórnlega að fara í einhverjar framkvæmdir og ég hef oft skotið mig í fótinn með slíkum átökum og legið flöt marga daga á eftir. Á slíkum stundum er mikilvægast að hafa hemil á sjálfri mér, svo ég geri mig ekki veikari en ástæða er til. Það tekst ekki alltaf en sem betur fer náði ég að hemja mig. Ég kíkti aðeins í Hagkaup að kaupa eina kókdós, svona sem nammi fyrir mig og manninn minn. Þar hitti ég vinkonu mína sem var að koma af karókikvöldi. Hún leit glæsilega út og minnti mig svolítið á að fólk hringir ekki í mig þegar atburðir eru í gangi því ég er ekki líkleg til að komast með. Ég þarf að fara að gera eitthvað í þessu sjálf líklega. Vera virkari að fylgjast með ef ég get.

Um hádegi á laugardaginn vaknaði ég aldrei þessu vant fullkomlega verkjalaus. Það gerist sjaldan þessa dagana, en gladdi mig mikið. Ennþá meira gladdi mig þegar Gullið bað mig um að skutla sér og vinkonu sinni á safn, og ég sá að ég myndi geta mammast svolítið. Við sóttum vinkonu hennar og kíktum svo á safnið. Þær eru báðar á þrettánda ári og safnið var reðursafn íslands, og auðvitað mikið flissað. Eftir safnið fórum við í Kringluna og keyptum krap, svo skoðuðum við okkur um sem var þægileg tilbreyting, að vera eðlileg með stelpunni sinni. Við kíktum í snyrtivörubúð og þær stelpurnar prófuðu allskyns hluti. Gullið er orðinn svolítill táningur og fermist á næsta ári. Hormónarnir eru aðeins farnir af stað hjá henni og smá bólur farnar að myndast hér og þar, sem kallaði á kaup á snyrtivörum, sem ég hafði ekki í raun efni á, en það var þess virði fyrir þennan dag. Hún þarf líka að fá að vera uppvaxandi stelpa og ég finn útúr peningunum einhvernvegin. Þegar við vorum búin í snyrtivörubúðinni fékk ég sms frá Prinsessunni þar sem hún spurði hvort við gætum komist í sund. Í raun og veru hafði ég ætlað að kíkja með annarri vinkonu í búðir að skoða sumarjakka sem mamma hafði boðist til að kaupa handa mér í afmælisgjöf. Aldrei þessu vant tókst mér að muna eftir því að takmarka framkvæmdirnar miðað við úthald seinustu daga. Ég skutlaði vinkonunum í aðra sundlaug sem þeim langaði í og sótti svo Prinsessuna. Stuttu eftir að við komum í sundið kláraðist orkan hjá mér og við fórum heim, en ég var virkilega ánægð með daginn. Þrír klukkutímar af “venjulegum” degi án verkja og áhyggja var algerlega það sem mig vantaði.

Sunnudagurinn fór að mestu í smá framkvæmdir heima. Mamma og pabbi höfðu boðist til að hjálpa okkur að sinna gólfunum og öðrum verkum sem við höfum ekki komist yfir í veikindum síðustu vikna. Krumminn hefur venjulega náð yfir mesta ruslið en þegar hann varð veikur í síðustu viku féll þónokkuð niður. Hjálpin var vel þegin en það er samt alltaf erfitt að muna að vera ekki að gera of mikið. Maður vill ekki líta út fyrir að vera alger aumingi en ég þarf mikið að minna mig á að vera ekki með einhverja hetjustæla á kostnað almennrar heilsu. Það þarf lítið til að fella mig núorðið. Ég fór eitthvað smá offörum og um kvöldið lennti ég í heiftugu verkjakasti á fundinum. Gleymdi að taka verkjalyf áður en ég fór svo ég gat sjálfri mér um kennt. Fékk augnverki, ógleði og vöðvaverki sem liðu hjá uppúr klukkan tíu reyndar. Þá var ég á leiðinni heim og ákvað að kíkja á kettlingana hjá vinkonu minni og endaði í margra klukkutíma spjalli um hitt og þetta sem var ótrúlega gaman. Seint og síðarmeir fór ég heim að sofa.

Dagurinn í dag var órtúlega fínn. Sólin skein og það var virkilega sumarlegt. Ég var eitthvað búin að vera að kvíða fyrir sumrinu. Flestir verða virkari og þá sá ég fyrir mér að munurinn milli mín og þeirra yrði skarpari kveið því hvernig það færi í mig. Ég er mikið að kljást við þessa auknu hömlur mínar og hver staða mín er gagnvart þeim en eitthvað er ég að verða jákvæðari. Líklegast vegna þess að ég sé að andlega hliðin er að braggast hjá Krummanum, hlutir eru komnir meira á hreint varðandi fjármálin þótt þau verði knöpp og þegar ég þarf að hafa minni heildaráhyggjur af sliku fæ ég rými til að sjá jákvæðu hlutina og meira að segja verkirnir verða þolanlegri. Ég fór í stutt viðtal til hjúkrunarfræðingsins og þegar ég kom heim dró maðurinn minn mig í litla gönguferð. Ég var örþreytt eftir gönguna en eftir að leggja mig stutt tók við ágætiskvöld. Við gláptum á þætti og Krumminn og Gullið sinntu heimalærdómnum. Á morgun þarf ég að sinna nokkrum skriffinskuvesenum en núna tekur svefninn við.